Að kaupa notaðan 24 kWh Nissan Leaf 2011-2017

Þegar kemur að því að kaupa notaðan Nissan Leaf 24 kWh, 2011 - 2017 er gott að hafa í huga að þetta eru ekki allt sömu bílarnir hvað búnað, ástand og heilsu rafhlöðu varðar. Vissulega er rafhlaðan jafn stór en bílarnir hafa einnig mismunandi staðalbúnað sem mikilvægt er að hafa í huga þegar finna á rétta bílinn. T.d. eru til Nissan Leaf rafbílar á markaðnun hér sem eru ekki með CHAdeMO hraðhleðslutengi og taka því eingöngu við Type 1 (J1772) hleðslu. Slíkt getur verið ásættanlegt ef viðkomandi ætlar sér aldrei að reiða sig á hraðhleðslu og hleður eingöngu heima eða í vinnu. Þetta er dæmi um einfaldan hlut sem auðvelt er að skoða áður en fjárfest er í notuðum Leaf.

Vænt drægni m.v akstur er annað atriði. Ágætis viðmið með Nissan leaf 2011 - 2016, með 24 kw rafhlaðu, er að hann kemst um 60-80 km að vetrarlagi og 110-120 að sumri til eða við bestu aðstæður. Rafbílar eru almennt mjög hentugir í innanbæjarakstri því þeir ná að endurhlaða rafhlöðurnar töluvert í svokölluðum stopp-start akstri sem fylgir innanbæjarumferð. Hér er svo yfirlitssíða yfir Nissan leaf 24 kWh frá ev-database.

Heilsufarsmæling rafhlöðu nissan leaf.png
  1. Heilsustaða rafhlöðunnar. Hér er gott að átta sig á hver heilsustaðan er. Það er annarsvegar hægt að tengja OBD2 kubb í tengið í bílnum og nota LeafSpy snjallforrit til að sjá heilsu á rafhlöðunni upp á nákvæma prósentu ásamt fleiri gögnum. Hægt er að bóka slíka heilsufarsmælingu hjá Rafbílastöðinni. Einnig er hægt að sjá fljótlega á strikunum lengst til hægri í mælaborðinu hvort að öll 12 strikin séu til staðar, ef þau eru öll þá er heilsan a.m.k 85 prósent, ef það er 11 þá er það minna en það o.s.frv. En til að vita hvar á bilinu 85 - 100 prósent heilsan liggur er LeafSpy og OBD2 lausnin. LeafSpy veitir líka upplýsingar um hversu oft bíllinn hefur verið hlaðinn í hraðhleðslu og heimahleðslu. Gott er líka að vita hvort fyrri eigendur hafi skilið hann eftir fullhlaðinn oft, hvort bíllinn komi frá heitu svæði, t.d í Ameríku þar sem er mjög heitt á sumum svæðum, en helstu frásagnir af minnkaðri getu rafhlöðunnar til að geyma rafmagn koma frá heitari svæðum. Orsakast þetta af því að þessi fyrsta kynslóð af Leaf var ekki með vatnskælingu á rafhlöðunum. Annars hleður Nissan Leaf hleður raunverulega ekki upp í 100% en hann skilur eftir um 10% og notar því 22 kW og er þetta gert til að auka líftíma hennar. Með LeafSpy getur maður séð þessar upplýsingar og meira til.

  2. Hleðslutegund og hleðslusnúrur. Er ekki öruggleg CHAdeMO hraðhleðslu tengi? Þú sérð það með því að opna hleðslulokið framan á bílnum og sjá hvort séu ekki tvö hleðslutengi, eitt appelsínugult og hitt svart og stærra. Fylgir hleðslutæki með bílnum? Leaf er með Type 1 (J1772) tengi og þá er gott að eiga Type 1 í Type 2 til að hlaða á almenningshleðslustöðum. Fylgir ekki örugglega hleðslusnúra í hefbundinn tengil? Það er í raun einungis mælt með henni sem neyðarhleðslu eða til vara eins og ef skroppið er í bústað og slíkt. Hleðslutækin sem fylgja bílnum hlaða alltaf hægar en vegghleðslustöðvar sem ætlaðar eru til verksins.

  3. Staðalbúnaður og týpa. Það er ágætis regla að vera búin að hugsa hvaða eiginleika og búnað þú vilt hafa í bílnum. Sumir bílar eru t.d. ekki með Bluetooth, þ.e.a.s til að spila tónlist nema þá í gegnum aux tengi eða usb. Viltu hafa bakkmyndavél? Hvað með 360° myndavél? Ef allt er til staðar sem uppfyllir þínar þarfir þá ættir þú að vera í góðum málum, um það snýst málið. Kynntu þér svo staðalbúnaðinn og hvort þetta sé:

o Ameríku týpa, S, SV og SL eða Evrópu týpa, Visia, Acenta og Tekna.

4. Útlit og innflutnings - Er útlitið og ástand hans að innan sem utan í góðu lagi? Ber hann þess merki að hafa fengið góða umönnun? Það er góðs viti og hefur áhrif á verðgildi og vænt endursöluvirði svo framarlega sem þú hugsar einnig vel um hann. Það sem kaupendur á notuðum Nissan Leaf eru að horfa á eru þrjár mismunandi útfærslur frá þrem mismunandi stöðum.

  • Umboðsbíll - þ.e. pantaður í gegnum BL á Íslandi og staðalbúnaður ákvarðaður af BL, t.d loftkæling, cruise control o.fl. En þar er um að ræða þó Visia, Acenta og Tekna eins og með Evrópu bíla innflutta.

  • Innfluttir Evrópu bílar sem komu ekki í gegnum umboðið. Hér gætum við verið að fá bíla frá mismunandi löndum og þ.a.l með mismunandi staðalbúnaði.

  • Innfluttir Ameríku bílar. Hér erum við að tala um S, SV og SL. Þeir eru t.d ekki í ábyrgð en þó hefur aldrei reynt alvarlega á slíkt. Fyrstu Leaf bílarnir sem komu til lands voru flestir frá Ameríku og eru þeir síður en svo að koma verr út en sambærilegir bílar frá Evrópu.

Það borgar sig að taka ekki öllu hér að ofan of alvarlega en gott er að vera meðvitaður um þessi atriði áður en gengið er frá kaupunum. Hægt er að gera góð kaup þó atriðin hér að ofan séu ekki öll upp á 10. Við viljum fyrst og fremst og helst af öllum komast frá A-B, spara kostnað við rekstur bifreiðar og vera ánægð á bílnum.

Drægni, drægni, drægni. Gerðu ekki of mikið úr drægninni ef þú raunverulega þarft ekki meira og ert með auðvelt aðgengi að hleðslu. Við sitjum oft föst í þessu en raunveruleikinn er sá að ef við erum eingöngu að snatta innanbæjar og jafnvel fara á milli landshluta þá er kannski nóg að bíllinn hafi 100 km drægni ef hægt er að hlaða hann reglulega. Það keyrir enginn hringinn í kringum landið án þess að stoppa, hvort sem þú ert á eldsneytis- eða rafbíl. Njóttu þess að stoppa, hlaða og upplifa eitthvað nýtt. Ef þú þarft rafbíl í lengri ferðir þá eru ótrúleg flóra að spretta upp allsstaðar um þessar mundir en sökum þess að um nýja bíla er að ræða þá eru þeir vissulega dýrari en notaður Nissan Leaf.

Bókaðu heilsufarsmælingu á rafhlöðu Nissan Leaf hjá Rafbílastöðinni í gegnum rafbilastodin@rafbilastodin.is